laugardagur, desember 22, 2007

downslope

Nú finnst mér við hæfi að rita niður nokkur orð.

Ég veit í sjálfu sér ekkert hvað ég á að skrifa en skilmerkilegustu og innihaldsríkustu klausurnar fyrir bloggfærslu birtast mér þegar ég er við það að sofna á kvöldin. Karma alheimsins sér jafnframt fyrir því að ég vakna algerlega minnislaus daginn eftir.....frábært!

Ein af ástæðunum fyrir því að ég hef ekkert skrifað hér að undanförnu er til að komast hjá fjöldaákærum, hugsanlegri fangelsisvist og e.t.v. ofsóknum á hendur fjölskyldu minnar, vina og vandamanna. Þetta kunna að virðast óskiljanleg rök fyrir skorti á skrifum en þar sem að allflestir hópar, af hvaða tagi sem er, lögsækja fólk fyrir að koma skoðunum sínum á framfæri þá fengi ég 100 x lífstíðardóm fyrir það sem að ég hef að segja. Að þessu leyti eru bloggsíðurnar að verða æ óhentugri til að gagnrýna eitt og annað sem annars mætti koma fram, þó ekki sé nema skoðun eins manns án dónaskaps og ærumeiðinga. Ég tek ekki þá áhættu.

Þar sem að ég hef verið þvingaður til að hætta gagnrýni og umræðum um ákveðin mál er ég tilneyddur til að skipta um blogg og/eða fá mér annað sem að fjallar um skemmtanahald um helgar og þess háttar vitleysu. Þar mun koma fram hvar aðalsamkoma topp skemmtanafíkla var þá og þá helgi, hver lést áfengisdauða fyrstur, hver var fyrstur til að æla yfir sjálfan sig, hver var með mestu dólgslætin og síðast en ekki síst hver svaf hjá hverjum og hvers vegna, ennfremur hver svaf ekki hjá hverjum og hvers vegna ekki. Þetta á eftir að verða mjög áhugavert.....og að sjálfsögðu fylgja myndir.

Sjáum hvað gerist.

Góðar stundir.

mánudagur, október 01, 2007

Að lifna við...

Í dag neyddist ég til þess að fara í vinnuna......það var ekki gaman.

Um síðustu helgi fór ég á réttarball í reiðhöllinni.....það var gaman......held ég. Þar var margt fólk og mikill hávaði. Áður en ég fór á þennan dansleik var ég í ofurgleðskap hjá Haraldi frænda mínum ásamt góðum félögum. Þess má geta að veislugestir voru búnir að ná góðu forskoti í áfengisþambi þegar ég loksins lét sjá mig um kvöldið. Ég tók þá magnþrungnu ákvörðun að ná þeim!

Það fór þannig fram að ég, ef hægt er að taka svo til orða, andaði að mér tæplega einum lítra af Captain Morgan og kippu af Tuborg Gold. Í lokin fékk ein freyðivínsflaska að finna fyrir því. Það þarf vart að útlista hvaða afleiðingar það hefur að drekka líkamsþyngd sína á mjög skömmum tíma.

Þar sem ég kem til með að skrifa hlutfallslega fleiri færslur hér á næstunni, miðað við fyrri afköst, þá finn ég mig knúinn til að minna ykkur á að þetta blogg er enn með lífsmarki þótt lítið sé.

Takk fyrir.

miðvikudagur, september 12, 2007

Sögur að handan...

Í tilefni þess að ég er kominn heim af sjónum hef ég ákveðið að blogga lítillega.

Nú hef ég haft það orð á mér að ég sé ekki duglegur að blogga.....en það er ekki rétt. Ef yfirlitið á síðunni minni er skoðað sést að þar má finna fjöldann allan af færslum. Mér þætti því vænt um að ég yrði minna skammaður af frændfólki mínu í framtíðinni fyrir ritstíflu.

Er í augnablikinu staddur í Danmörku hjá systur minni og fjölskyldu, ásamt bróður mínum. Var í Svíþjóð um síðustu helgi og fram á þriðjudaginn, hjá mágkonu minni og börnum. Það var góð ferð og löngu tímabær enda hafði ég ekki séð þau í rúmt ár.

Nú hef ég náð gífurlegri færni á reiðhjóli og ferðast mikið á því hérna. Drekk reglulega bjór (við þorsta auðvitað - vatnið ódrekkandi).

Fleiri færslur koma á næstunni - er á leiðinni í búðina.

Bless.

þriðjudagur, júní 19, 2007

Smá update

Eftir miklar vangaveltur ákvað ég að láta verða af því að blogga. Ekki að ég hafi svosem neitt merkilegt að segja en samt eitthvað. Í dag er kominn 19.júní og á allra næstu dögum fer ég í frystitúr á aflaskipinu Örvari frá Skagaströnd. Ég veit ekki hvort að þeir séu nettengdir þar en ef svo er þá sendi ég ykkur kannski einhverja þvælu.

Síðan ég lauk skólanum núna í vor hef ég ekki verið í neinni fastri vinnu en hef samt sem áður unnið einsog berserkur hjá gamla settinu, ömmu og afa og honum bróður mínum. Þetta "frí" hefur verið ágætt en nú er kominn tími til að afla tekna til heimilisins. Vona að ég muni eftir að láta verða að því að koma heim með siginn fisk til ömmu gömlu.

Þegar ég kem heim mun ég halda partý til að fagna því að Subaru bifreið mín skreið yfir 250.000 kílómetra markið á dögunum. Einnig hef ég í huga að festa kaup á krossara áður en sumarið er liðið en það hef ég ætlað mér að gera þegar ég lyki námi, eða nánast lyki því. Einsog alþjóð veit á ég 10 einingar eftir sem ég að sjálfsögðu klára þrátt fyrir efasemdir ákveðinna aðila.

Þangað til næst...behave og gerið ekkert sem ég myndi gera.

laugardagur, apríl 21, 2007

Fyrir Signýju...

Jæja. Nokkrar línur.

Er opinberlega orðinn háður sjónvarpsþáttaröðinni 24 með Kiefer Sutherland í fararbroddi sem Jack Bauer. Er kominn í u.þ.b. miðja aðra seríu og get illmögulega hætt að hugsa um hvatvísi Bauers og lagni við úrlausn vandamála.

Miðvikudaginn síðastliðinn (eiginlega fimmtudaginn samt) fór ég ásamt Ísaki og Pétri Fannberg á Pendulum á Broadway. Það var ágætis skemmtan fyrir utan þá sviksemi að klippa aftan af tónleikunum einsog 1 klukkutíma....ég var óglaður yfir þessu.

Ein vinnuvika eftir í skólanum og í kjölfarið fylgir einn tugur prófa, ef ég næ símati í tveimur áföngum. Get ekki beðið eftir því að klára þetta og koma mér burt héðan.

Heimsótti ömmu Ásdísi áðan og snæddi mexíkanska grýtu þar ásamt Steingrími föðurbróður mínum. Svo fékk ég ís.

Hvað líf eftir skólann varðar er það óráðið. Þar sem viðbrögð frá FISK-SEAFOOD við síendurteknum starfsumsóknum mínum eru engin, verður annar landshluti fyrir valinu. Hvaða hluti það verður er ég ekki viss um en vona að komast í betra umhverfi......laust við skort á starfshæfni yfirmanna.

Man í augnablikinu ekki eftir fleiru til að segja frá, en það kemur á næstunni. Þessi pistill er tileinkaður frænkum mínum sem ég hef vanrækt með skorti á bloggfærslum.

fimmtudagur, febrúar 08, 2007

Entrópí

Vegna fjölda áskorana hennar Sibbu frænku þá hef ég ákveðið að hripa niður nokkrar setningar. Nú er ég á síðustu önn í Vélskólanum og hef nóg að gera, er í 32 einingum. Það kemur samt sem áður engan veginn í veg fyrir ótakmarkaða fíkniefnaneyslu, allar sortir eiturlyfja, óverðskuldað tölvuleikjaspil fram eftir nóttu og undir morgun ásamt hryðjuverkum. Það sem ég hef hugsað mér að gera með skóla, dópaður að sjálfsögðu, er að smíða vélbyssu og fara í miðbæinn á góðum degi og fá ókeypis bjór gegn því að sýna hvað ég geymi í buxnastrengnum. Handsprengjur eru líka mjög heppilegar og láta vel að sér kveða í fjölmenni.

Búast má við að það skili sér færslur hér inn á næstunni, en það hefur kannski ekki mikið að segja þar sem að fáir lesa, 3-4 að meðaltali.

Þakka liðið, Jethro Stardust.

föstudagur, desember 15, 2006

Próftíðin er.......MUERTE!

Dömur og herrar.

Nú hef ég loks ákveðið hverfa aftur til Bloggheima og rita einhverja innantóma þvælu sem enginn vil lesa frekar en áður. Prófin eru loksins búin og ég fæ ekki betur séð en að þetta hafi gengið skítsæmilega þrátt fyrir ýmsa árekstra. Þegar ég hafði lokið þessum þremur prófum í dag og kysst ömmu gömlu bless, og étið líkamsþyngd mína af smákökum hjá henni, tók ég stefnuna norður í Skagafjörðinn......og lét Black Beauty (Súbbann) heldur hafa í rörið. Ég heyrði reyndar um daginn að Subaruinn væri einnig kallaður líkbíllinn, en það er þeim Friðgeiri skipstjóra og Hudson Bay að þakka.

Þegar á Krókinn var komið æddi ég beint í fangið á mömmu gömlu sem var að passa átvaglið hana frænku mína, Katrínu. Heima hjá henni systur minni voru til franskar kartöflur og sælgæti sem ég tróð í mig af áfergju og lét mig svo hverfa í föðurhúsin og rændi þar bjór sem ég sötra yfir þessum skriftum. Þetta er nóg í bili.

Viva Las Skagafjörður og ROCK ON!!!
© Ísak Sigurjón, 2006