mánudagur, desember 26, 2005

Jólin

Jæja, sælt veri fólkið og gleðileg jól. Vegna fjölda áskorana hef ég ákveðið að skrifa á þessa fínu bloggsíðu mína. Vona að allir hafi fengið eitthvað gott að borða um jólin....allavega er ég hálfónýtur af ofáti. Vona að við sjáumst frændsystkinin ofurölvi og lítt geðsleg á áramótunum. Jæja.......ekki meira um það.
Smell you later.

fimmtudagur, desember 01, 2005

Árni minn, já Árni minn.......

Já það er nefnilega það. Systkinin berjast sín á milli og þú ert skilinn eftir í skugganum. Svo það sé nú ekki minnst á Nóbelstengdu bloggverðlaunareglurnar sem virðast vera eitthvað grín í augunum á þessu fólki....ég er svoleiðis vita undrandi á svona háttalagi. Þú vannst í það minnsta móralskan sigur Árni minn.
Ætli ég sé ekki tilneyddur til að fara í próf á morgun í fagi sem ég kann jafnmikið í einsog Amish-fólkið veit um tímamismun milli straums og spennu í rafmagnsrásum sem hefur að geyma krampakennt spanálag......ergo, ég er úti á gresjunni að bora í nefið.
Lenti í býsna skemmtilegri lífsreynslu í morgun sem að ég tel skyldu mína að greina frá. Þar sem ég var að rúnta eitthvað í gærkveldi og í framhaldinu á leiðinni í skólann ,að læra undir þetta æsilega próf, ákvað ég að bregða á sprell og lagði í bílastæði áfangastjórans.....sem ég ætlaði þá væntanlega að þykjast vera ef spurt yrði um bifreiðina. En einhverra hluta vegna ákvað ég að skilja bílinn eftir og fór heim að sofa. Það má segja að ég hafi vaknað upp við vondan draum í morgun þegar hringt var í mig og mér tjáð að bifreið mín væri ákaflega óheppilega staðsett í rúmi þessa alheims og skyldi tafarlaust fjarlægja hana. Ákaflega mæddur skakklappaðist ég í geðvonsku minni og fjarlægði áðurnefnda bifreið og sá, mér til skelfingar, að áfangastjórinn hafði verið nauðbeygður til að leggja í stæði umsjónarmanns. Svona ódæði frem ég ALDREI aftur!!! En þar að auki mér til ómældrar kátínu sá ég að búið var að líma miða á bílrúðuna hjá mér sem tjáði mér að ég væri ekki velkominn í bílastæði af þessum ættum og mér væri skilt að ganga tafarlaust niður á Lækjartorg og sæta refsimeðferð í gapastokk og vera hæddur af sauðsvörtum almúganum. Þess má geta að límið sem notað er á bakhlið þessara miða er nógu sterkt til að líma saman lærin á Annabelle Chong og þarf nú ekki að útlista hverslags ógnarhald það hlýtur að vera ! En það sem ég er að reyna að segja er að ég varð vægast sagt snælduvitlaus við þessa sjón sem blasti við mér og plokkaði miðann af rúðunni með viðeigandi áhrínisorðum til geranda þessarar óhæfu. Fljótlega fann ég til hræðslu þegar bráði af mér og áttaði mig á því að ég væri kominn í stapp við eina öflugustu mafíu sem fyrirfinnst...Fjöltæknimafíuna. Þess má geta að hlutir sem meðlimir þessarar mafíu framkvæma, þá sérstaklega í garð saklausra sveitaprinsa, eru mun óhugnanlegri en nafn mafíunnar gefa til kynna. Þar sem ég stóð frosinn af hræðslu og bjóst við að fá riffilskot í hnakkann ofan úr turni, þá væntanlega frá leyniskyttu guðföðursins, fyrir þær sakir að vanvirða miðann í stað þess að gera krossmark yfir honum reyndi ég að mjaka mér hægt og rólega í burtu...og viti menn...þegar ég var kominn fyrir húshornið hjá bílastæðunum tók ég rás og linnti ekki hlaupum fyrr en ég var kominn inn í herbergið mitt og kastaði þá upp af geðshræringu. Þar á eftir lagðist ég hríðskjálfandi upp í rúm og lá þar í fósturstellingunni fram eftir degi.
Saga þessi innheldur lítinn sem engan boðskap nema þá helst að hvað sem maður gerir....hvað sem er.....ALDREI kaupa bíl og hvað þá að taka bílpróf og síðast en ekki síst að láta sér detta slíka fjarstæðukennda vitleysu í hug að leggja í bílastæði mafíunnar.
Þakka áheyrnina.......er á leiðinni í einangrun.

Hjörtur
© Ísak Sigurjón, 2006